Nú líður að jólum og þá er sérstaklega mikilvægt að huga að eldvörnum heimilisins eins og að skipta um rafhlöðu í reykskynjaranum, kaupa eldvarnateppi ef það er ekki til staðar í eldhúsinu og athuga hvort komið sé að yfirferð og skoðun slökkvitækis.
Talandi um slökkvitæki, erum við að missa sjónar á öryggi heimilisfólks á kostnað fallegrar hönnunar? Það er gaman að eiga fallegt heimili og margir hafa ánægju af því að eiga fallegar hönnunarvörur til að prýða það. En hvað skiptir mestu máli í okkar daglega lífi, eru það veraldlegir hlutir eða fólkið okkar?
Ég veit að allir segja að auðvitað gangi fólkið okkar alltaf fyrir og enginn vill viljandi leggja sína nánustu í hættu en það er einmitt inntak þessarar greinar. Vita fagurkerar, áhrifavaldar, vöruhönnuðir, lífstílshönnuðir eða aðrir þeir sem hanna, selja eða mæla með „hönnunarvörum“ sem í tísku eru í það og það skiptið, þegar þeir eru að stofna lífi fólks í hættu?